Forstjóri Shell, Jeroen van der Veer, segir að fyrirtækið muni fjárfesta í nýjum olíuleitarverkefnum þó svo olíuverð fari niður í 50 bandaríkjadali á tunnu. Þetta segir hann með þeim fyrirvara að stjórnvöld auki ekki á byrði olíufyrirtækja með því að hækka skatta.

Breska blaðið Telegraph segir frá þessu á vefsíðu sinni.

Olíuverð stendur nú í 56,12 bandaríkjadölum á tunnu, en tunnan fór lægst í 51,25 bandaríkjadali í dag . Forstjórar ýmissa stórra olíufyrirtækja hafa sagt í fjölmiðlum undanfarið að nauðsynlegt sé að olíuverð haldist yfir 80 bandaríkjadölum á tunnu svo fjárfestingar í nýjum verkefnum borgi sig.

Olíuverð náði methæðum í sumar þegar olíutunnan kostaði mest 147 bandaríkjadali. Síversnandi fjármálakrísa heimsins hefur valdið því að verð á olíu hefur snarfallið í kjölfar minnkandi eftirspurnar

Alþjóða orkumálastofnunin, IEA, spáir enn minnkandi eftirpurn á næsta ári og að eftirspurnin hafi ekki verið jafnlítil í tólf ár.

Van der Veer, forstjóri Shell, segir að enn séu tækifæri til fjárfestinga í olíugeiranum t.d. í Írak og að fyrirtækið stefni á samninga þar.