Royal Dutch Shell hóf að flytja burt aðstandendur erlendra starfsmenn frá Niger Delta svæðinu í Nígeríu í gær, en öryggi starfsmannanna var ekki lengur talið tryggt, segir í frétt Dow Jones.

Talsmaður fyrirtækisins sagði að um varúðarráðstafanir væri að ræða. Í gær réðust vígamenn inn á dælustöð franska olíufyrirtækisins Total SA og féllu tveir öryggisverðir í átökunum.

Talsmaður Shell sagði að dælustöð fyrirtækisins við Obagi hafi verið lokað, en þar voru framleidd 50 þúsund olíuföt á dag.

Nígería er stærsti olíuframleiðandi Afríku og fimmti stærsti birgðasali til Bandaríkjanna, en framleiðsla landsins hefur ítrekað verið skert á árinu, vegna árása og gíslatöku vígamanna, sem ýmist krefjast lausnargjalds eða pólitískra afskipta.