Hollenska olíufyrirtækið Royal Dutch Shell hefur samþykkt að greiða samtals 84 milljónir bandaríkjadala, jafngildi um 11 milljarða  króna, til íbúa Bodo í Nígeríu vegna olíuleka úr leiiðslum fyrirtækisins á svæðinu árin 2008 og 2009. BBC News greinir frá þessu.

Um 15.600 nígerískir veiðimenn, sem urðu fyrir miklu tjóni vegna lekans, munu fá skaðabætur frá fyrirtækinu. Mun hver og einn fá greidda 3.300 dali sem samsvarar um 430 þúsund íslenskum krónum. Þá standa 30 milljónir dala eftir sem munu ganga til samfélagsins í Bodo.

Hagsmunaaðilar í Nígeríu héldu því fram fyrir dómi að olíufyrirtækið hefði verið varað við slæmu ástandi olíuleiðslunnar á svæðinu áður en hún gaf sig. Shell neitaði hins vegar þessum ásökunum og hafnaði því að fyrirtækið hefði vísvitandi haldið áfram að notast við olíuleiðslu sem ekki væri örugg.