Undirliggjandi hagnaður hollenska olíurisans Royal Dutch Shell nam 3,2 milljörðum dala á fyrsta ársfjórðungi. BBC News greinir frá þessu.

Fjárhæðin er 56% lægri en hagnaður fyrirtækisins á sama tímabili fyrir ári síðan. Hins vegar er afkoman betri en sérfræðingar höfðu búist við, en þeir gerðu ráð fyrir 2,5 milljarða dala hagnaði.

Í ársreikningi fyrirtækisins kemur fram að það hafi selt eignir fyrir tvo milljarða dali það sem af er þessu ári. Sé eignasalan tekin með í reikninginn nam hagnaður fyrirtækisins á tímabilinu 4,76 milljörðum og jókst um 7% milli ára.

Gengi hlutabréfa Royal Dutch Shell hækkaði um 1% eftir kynningu uppgjörsins.