Royal Dutch Shell hefur viðurkennt að hafa ráðið verktaka fyrirtæki sem tengist nígerískum uppreisnarmönnum, sem tekið hafi þátt í ofbeldisöldunni þar í landi árið 2003. Þá var lokað fyrir 40% af olíuframleiðslu í Nígeríu.

Verktakarnir tengjast uppreisnarhópnum Hreyfingu fyrir frelsun Níger deltunnar (e. Movement for the Emancipation of the Niger Delta, Mend), sem réðist á olíuvinnslustöðvar Shell á þessu ári og varð til þess að heildarframleiðsla fyrirtækisins minnkaði um fimmtung. Shell er áttundi stærsti olíuframleiðandi í heimi.

Sérfræðingar í olíugeiranum segja að með því að fela ofbeldisfullum heimamönnum verkefni reyni olíufyrirtækin að kaupa sér frið hjá ófriðarseggjum sem hótað hafi árásum á olíuvinnslustöðvar á þessu svæði.

Shell svaraði ekki spurningum Financial Times um málið, en sagði þó að fyrirtækið hefði notað tvö fyrirtæki, Shad-Ro Services og Intergrate Production System Surveillance (IPSS), til að eyða úrgangi og sinna öryggisvörslu við olíuleiðslur í vesturhluta Níger deltunnar, þar sem meirihluti árása þessa árs hefur átt sér stað.