Olíurisinn Royal Dutch Shell tapaði 21,7 milljörðum dala á síðasta ári. Þennan mikla taprekstur má rekja til mikils samdráttar í eftirspurn eftir olíu á tímum kórónuveirufaraldursins. BBC greinir frá.

Tveir keppinautar Shell, BP og Exxon, greindu einnig nýlega frá álíka miklu tapi.

Það mikla óvissuástand sem nú ríkir á heimsvísu mun áfram koma til með að hafa neikvæð áhrif á eftirspurn eftir olíu og gasi að sögn Shell. Þar af leiðandi reiknar félagið með að þurfa að draga úr framleiðslu.

Áður en COVID-19 kom til skjalanna lá fyrir að olíufélög þyrftu að breyta rekstri sínum og framtíðaráætlunum vegna krafna um vistvænni orkugjafa. svo virðist því vera að heimsfaraldurinn muni ýta félögunum út í að ráðast í þessar breytingar fyrr en reiknað hafði verið með.