Nýtt félag í eigu Jane Sheperdson, fyrrum framkvæmdastjóra TopShop, Baugs og Glitnis hefur samið um að kaupa Whistles af Mosaic Fashion og taka kaupin þegar í stað gildi. Whistles mun í framhaldinu verða tekið úr Mosaic Fashions, sem er í meirihluta eigu Baugs Group. Fyrrum samstarfsmenn Sheperdson hjá TopShop, Keith Wilkes og Jo Farrelly, munu einnig ganga til liðs við Whistles, sá fyrrnefndi sem fjármálastjóri og sú síðarnefnda sem markaðsstjóri.

Í tilkynningu sem Baugur sendi frá sér fyrr í morgun er kaupverðið ekki gefið upp, en verðmæti viðskiptanna er talið vera allt að 20-25 milljóna punda, eða um 2,5-3,1 milljarður króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Baugsmenn þekkt Sheperdson talsvert lengi og leituðu til hennar eftir samstarfi í kjölfar þess að hún yfirgaf Top Shop. Mun hún hafa lýst yfir sérstökum áhuga á Whistles-vörumerkinu og þeim möguleikum sem í því fælust. Whistles-keðjan þykir ekki stór á mælikvarða umsvifameiri aðila í smásöluverslun, en nú eru starfræktar 34 sjálfstæðar verslanir og 36 aðrar verslanir á Bretlandi og Írlandi undir því nafni, auk sjö sérleyfisverslana og einnar verslunar í eigin eigu í öðrum löndum.

„Þetta eru spennandi viðskipti. Ég er yfir mig ánægð með að vera að taka yfir rótgróið merki í Bretlandi sem felur í sér gríðarlega möguleika,” er haft eftir Sheperdson í tilkynningunni. Þá er haft eftir Derek Lovelock, forstjóra Mosaic Fashion, að þótt félagið hafi náð góðum árangri með Whistles-keðjuna hafi forsvarsmenn félagsins þá trú að Sheperdson og samstarfsmenn hennar hafi nauðsynlega sýn og getu til að færa fyrirtækið á næsta stig.