„Í myndskreyttum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar koma fram fagrar staðhæfingar um að öflugt menntakerfi sé forsenda framfara og boðuð er stórsókn í menntamálum. Stefnt er að því að fjármögnun háskólastigsins nái meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og meðaltali Norðurlanda árið 2025, sem muni skipta sköpum fyrir bæði kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum,“ þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands.

„Til þess að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um þrjá milljarða til háskólastigsins á næstu tveimur árum. Til þess að ná meðaltali Norðurlandanna þyrfti háskólastigið um það bil tveggja milljarða aukningu árlega til ársins 2025. Raunhækkun háskólastigsins fyrir árið 2019 er um 705 milljónir (1,6%) og fjármálaáætlun 2019-2023 gerir ráð fyrir um 2,7 milljarða viðbót næstu fimm árin til háskólastigsins í heild sinni. Það liggur því í augum uppi að ríkisstjórnin ætlar sér hvorki að standa við þau loforð að háskólar Íslands nái meðaltali OECD-ríkjanna né Norðurlandanna á tímabilinu,“ segir í tilkynningunni.

„Á Norðurlöndunum eru heildartekjur háskóla á ársnema að meðaltali 4,4 milljónir á ári en á Íslandi eru þær aðeins 2,6 milljónir. Nemendur á Íslandi fá því um 1,8 milljónum króna minna. Í fjárlögunum er raunhækkun Háskóla Íslands um 200 milljónir. Launa- og verðlagsbætur eru stór hluti af þessari hækkun en fjöldi ársnema sem greitt er fyrir stendur nánast í stað í frumvarpi til fjárlaga 2019. Því harmar Stúdentaráð nýútgefið fjárlagafrumvarp í núverandi mynd og skorar á Alþingi að gera betur og ná settum markmiðum í fjármögnun háskólastigsins.“