Á fundi með forseta Íslands í gærmorgun lýsti Shimon Peres, forseti Ísraels því ítarlega að nú hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að aukin viðskipti, umsvif fyrirtækja, fjárfestingar, menntun og nútímaleg atvinnutækifæri æskufólks myndu skila meiri árangri en viðræður ríkisstjórna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands en hann átti í gær fund með Peres í forsetahöllinni í Jersúsalem.

Í nýrri bók sem kemur út í haust mun Shimon Peres, forseti Ísraels gera grein fyrir þessari nýju stefnu. Bókin ber heitið Einkavæðing friðarins (Privatizing Peace).

Þar mun koma fram að aukin umsvif í atvinnulífi og viðskiptum milli þjóða í Mið-Austurlöndum væri árangursríkasta leiðin til friðar ásamt því að skapa nýjum kynslóðum tækifæri til menntunar og hátæknistarfa.

Án þess að fara slíka nýja leið til friðar væru litlar horfur á að takast myndi að skapa grundvöll að varanlegum friði í þessum heimshluta.