Hugh Short, stjórnarformaður Nova, var eini frambjóðandinn sem ekki hlaut kjör til stjórnar Nova á aðalfundi fjarskiptafélagsins sem fór fram síðdegis í dag. Short er framkvæmdastjóri fjárfestingarfélagsins Pt. Capital sem er stærsti einstaki hluthafi Nova með um 11% hlut. Innherji greindi fyrstur frá niðurstöðu stjórnarkjörsins.

Auk Short ‏þá víkja hinir tveir fulltrúar Pt. Capital, Kevin Payne og Tina Pidgeon, einnig úr fimm manna stjórninni en þau síðarnefndu sóttust ekki eftir endurkjöri. Fjárfestingafélagið frá Alaska hefur því engan fulltrúa eftir í stjórninni.

Pt. Arctic Fund, sjóður í stýringu hjá Pt. Capital, keypti ríflega helmingshlut í Nova árið 2017. Sjóðurinn eignaðist nær allt hlutafé Nova árið 2021 með kaupum á helmingshlut Novator, fjárfestingarfélags Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Í aðdraganda skráningar Nova í Kauphöllina í fyrrasumar var 36% hlutur í fjarskiptafélaginu seldur til hóps stofnanafjárfesta fyrir um 7 milljarða króna, þar af var um helmingur í formi nýs hlutafjár. Í frumútboði Nova sumarið 2022 var svo 44,5% hlutur seldur á 8,7 milljarða króna. Í kjölfar skráningar Nova var eignarhlutur Pt. Capital kominn niður í tæplega 11%.

Rétt er að benda á að samanlagður hlutur sjóða í stýringu Stefnis nemur a.m.k. 12,2% samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa Nova. Stefnir er því á slíkan mælikvarða stærsti hluthafinn.

Hugh Short sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í október að hann liti á hlut sinn í Nova sem langtímafjárfestingu og að fjárfestingarfélagið hygðist ekki selja eftirstandandi hlut sinn á næstunni.

Hann sagði stjórnarsetu hjá Nova hjálpa Pt. Capital m.a. að byggja upp viðskiptasambönd á Íslandi og styðja þannig við markmið félagsins um frekari fjárfestingu hér á landi.

Þrír nýir stjórnarmenn hjá Nova

Short var einn af sex frambjóðendum til stjórnar Nova og var meðal þeirra fimm sem tilnefningarnefnd lagði til að yrðu kjörnir í stjórn. Hluthafar Nova kusu eftirfarandi stjórn á aðalfundinum í dag:

  • Hrund Rudolfsdóttir, sitjandi stjórnarmaður
  • Jón Óttar Birgisson, sitjandi stjórnarmaður
  • Jóhannes Þorsteinsson
  • Magnús Árnason
  • Sigríður Olgeirsdóttir

Tveir sitjandi stjórnarmenn, Hrund Rudolfsdóttir og Jón Óttar Birgisson, voru endurkjörnir. Ásamt þeim voru þau Jóhannes Þorsteinsson, Sigríður Olgeirsdóttir og Magnús Árnason kjörin í stjórnina.

Nova birti meðfylgjandi mynd af fyrsta fundi nýrrar stjórnar.