Embætti Ríkisskattstjóra hefur boðað að birtar verði leiðbeiningar um hvernig meðhöndla eigi virðisaukaskatt á upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins. Samtökin segja að um sé að ræða kaflaskil í áralangri baráttu þeirra og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja fyrir auknu jafnræði á upplýsingatæknimarkaði.

Í bréfi sem samtökin sendu Samkeppniseftirlitinu í síðasta mánuði kom fram sú skoðun að upplýsingatæknifyrirtæki stæðu höllum fæti í samkeppni við Reiknistofu bankanna um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Fyrir lægi að fjármálafyrirtækin sem væru eigendur Reiknistofu bankanna hefðu ekki skilgreint hvernig meðferð virðisaukaskatts af upplýsingatækniþjónustu skyldi háttað líkt og þeim væri skylt að gera samkvæmt skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti þeim. Því töldu upplýsingatæknifyrirtæki að þeim væri ekki kleift að bjóða bönkunum þjónustu án VSK líkt og Reiknistofa bankanna hefur gert.

Samtök iðnaðarins segja að skýrar leiðbeiningar Ríkisskattstjóra muni tryggja aukið jafnræði á íslenskum upplýsingatæknimarkaði. Þessi niðurstaða, sem hafi fengist eftir þrýsting og mikla vinnu samtakanna og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, sé mikill sigur fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem starfi á markaðnum.

Sjá nánar á heimasíðu Samtaka iðnaðarins .