Samtök iðnaðarins fagna þeirri breytingu sem hefur verið gerð á byggingarreglugerð og undirrituð hefur verið af umhverfis- og auðlindaráðherra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í morgun.

Samtökin segja að stórt skref hafi verið stigið í átt til að lækkun byggingarkostnaðar með því að gera reglugerðina sveigjanlegri, sem gerir hönnuðum og framleiðendum kleift að finna bestu lausnirnar við byggingaframkvæmdir. Verið er að koma til móts við kröfur samtakanna um einföldum regluverks sem getur leitt til verulegrar lækkunar á byggingarkostnaði á litlum íbúðum.

Tapað tækifæri til að uppfylla þarfir ungs fjölskyldufólks

SI telur þó að betra hefði verið að ráðuneytið hefði ekki fallið frá fyrstu reglugerðardrögum þar sem gert var ráð fyrir að dregið væri úr rýmiskröfum fyrir allar íbúðir óháð stærð þeirra. Í reglugerðinni eru tilslakanir í rýmiskröfur einungis látnar ná til íbúða sem eru allt að 55 fm að stærð.

Samtökin telja að ganga hefði átt lengra í breytingunum og láta þær ná til allra íbúða, eða í það minnsta til íbúða allt að 90 fm að stærð, enda sé mikill skortur á íbúðum í þeim stærðarflokki fyrir ungt fjölskyldufólk með tvö börn eða fleiri. Samtökin segja að með þeim takmörkunum sem reglugerðin setur sé verið að missa af tækifæri til að uppfylla þarfir ungs fjölskyldufólks.