Á vef Samtaka iðnaðarins er greint frá því í dag að um 30% starfsmanna Fjarðaráls á Reyðarfirði eru konur.

Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi Alcoa á Íslandi segir að um sé að ræða met innan Alcoa og hugsanlega heimsmet.

Við hönnun álversins var tekið tillit til að kynjahlutfall starfsmanna í framleiðslu yrði jafnt. Starfsmenn eru nú um 420 sem er fleira starfsfólk en gert var ráð fyrir í upphafi.

Þeir eru nær allir Íslendingar, 53% þeirra koma af Austfjörðum en 47% eru aðfluttir. Stefnt er að því að fjölga starfsmönnum um 30 á næstunni.

Í tilefni kvennadagsins býður Fjarðarál til „bleiks kaffiboðs“ í matstofu álversins klukkan 17.