Samtök iðnaðarins hafa gefið út nýtt tímarit sem fjallar um nýsköpun. Í tímaritinu, sem er 128 blaðsíður, er skyggnst inn í ótal greinar íslensks iðnaðar og dregnar fram fjölbreyttar hliðar nýsköpunar. Horft er til frumkvöðla og stjórnenda í nýjum atvinnugreinum eins og líftækni, gagnaversiðnaði og tölvuleikjaiðnaði.

Einnig er rætt við þá sem stunda nýsköpun í rótgrónari iðnaði, líkt og matvælaiðnaði, áliðnaði og byggingariðnaði. Í tímaritinu kemur fram í grein aðalhagfræðings SI að fram til ársins 2050 þurfi að skapa 60 þúsund ný störf.

Þá kemur fram sýn forseta Íslands og nýsköpunarráðherra á hvert mikilvægi nýsköpunar er fyrir Ísland, auk þess sem formaður SI og framkvæmdastjóri SI segja frá því hvers vegna samtökin leggja áherslu á nýsköpun og hvaða þýðingu það hefur að hvetja til sóknar á því sviði.

Ritstjóri tímaritsins er Margrét Kristín Sigurðardóttir.