Aðalmeðferð stendur nú yfir í skaðabótamálum Samherja og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra félagsins, gegn Seðlabanka Íslands. Skaða- og miskabótakröfurnar í málinu eru samanlagt 316 milljónir króna. Krafan byggir að meginstefnu á endurkröfu á launagreiðslum starfsmanna, alls 306 milljónir króna, sem komu að vörnum félagsins í máli Seðlabankans gegn félaginu en tíu milljónir eru miskabótakrafa.

Rót málsins má rekja til húsleitar Seðlabankans í mars 2012 í höfuðstöðvum Samherja. Lyktir rannsóknar bankans voru þær að málið var sent sérstökum saksóknara í tvígang sem felldi það niður þar sem ekki var refsiheimild í reglugerð til að refsa fyrir meint brot. Þrátt fyrir það lagði Seðlabankinn stjórnvaldssekt á sjávarútvegsfyrirtækið. Sú sekt var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar í nóvember 2018.

Sökum sóttvarnaráðstafana og fjöldatakmarkana inni í dómsal reyndist erfitt að hafa þinghaldið opið með hefðbundnum hætti þar sem salurinn rúmar ekki alla þá sem hafa hug á því að fylgjast með. Dyr salsins eru opnar og hafa blaðamenn aðstöðu frammi á gangi héraðsdóms til að reyna að heyra það sem fram fer. Sjálfvirkar hurðapumpur, lögmenn á leið í fyrirtökur og almennur umgangur truflar því nokkuð að unnt sé að greina það sem fram fer.

Aðalmeðferðin hófst á aðilaskýrslu Þorsteins Más. Rétt er að gera ákveðinn fyrirvara við frásögnina af þinghaldinu en hún er í samræmi við þau orðaskil og varalestur blaðamanns.

„Seðlabankinn keyrði málið í gegnum fjölmiðla þar sem bankinn ásakar okkur um tugmilljarða brot. Niðurstaða rannsóknarinnar var að gjaldeyri hafi verið skilað af kostgæfni og umfram skilaskyldu,“ sagði Þorsteinn Már meðal annars og sagði að málareksturinn allur hefði reynst starfsfólki afar þungbær.

Þegar kom að því að Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans í málinu, hóf að spyrja Þorstein út í atvik máls urðu svörin eilítið óljósari. Spurt var út í ýmis félög sem tengdust rannsókn málsins en svörin voru ekki mjög ítarleg. Nokkrum sinnum þurfti dómari málsins að grípa inn í og biðja forstjórann um að svara spurningum lögmannsins eða þá að benda honum á að hann gæti neitað því að svara.

„Nú er það þannig að eitt stærsta atriðið í rannsóknarskýrslu Seðlabankans er að Axel ehf. hafi bókað hjá sér sölupantanir fyrir 14 milljarða króna en skilað gjaldeyri fyrir 1,9 milljarða króna með beinum hætti,“ sagði Jóhannes Karl og bað Þorstein að varpa ljósi á atvik málsins.

„Það er rangt hjá þér, ég get látið þig hafa möppurnar. Þetta er algjörlega ný fullyrðing og þú skalt átta þig á því að húsleitarheimild Seðlabankans varðaði ásakanir um að við hefðum selt fisk á undirverði. Það var aðalástæðan fyrir þessari húsleitarheimild,“ sagði Þorsteinn Már.

Önnur vitni hingað til hafa verið Arna Bryndís McClure, lögfræðingur Samherja, og Hreiðar Eiríksson, fyrrverandi starfsmaður gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Þinghaldinu var lokað skömmu eftir að skýrslutaka yfir Hreiðari hófst og er það staðan nú.

Stefnt er að því að munnlegur málflutningur hefjist að skýrslutökum loknum en sá hefur verið færður úr dómsal 202 yfir í dómsal 101.