Í lok mánaðar er áformað að taka í notkun nýtt millibankagreiðslukerfi Seðlabankans. Um er að ræða endurnýjun á því kerfi sem í dag er kallað jöfnunarkerfi, sem er fyrir millibankagreiðslur undir 10 milljónum króna, og stórgreiðslukerfi, sem er fyrir stærri greiðslur,“ segir í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Fram kemur að undirbúningur hafi staðið yfir síðustu ár og nú standa yfir lokaprófanir en verkefnið er unnið í samstarfi við Reiknistofu bankanna og fjármálastofnanir. Í glærukynningu Seðlabankans í síðustu viku segir að um sé að ræða kerfislega mikilvægustu fjármálainnviði Íslands en gamla kerfið hefur verið í notkun í um tvo áratugi.

Samanlögð fjárhæð sem fór um kerfin á síðasta ári nam um 21 þúsund milljörðum króna. Venjulegir notendur eiga ekki að finna fyrir breytingum þegar kerfið verður tekið í notkun.