Stjórn Samtaka iðnaðarins hefur sent frá sér harðorða ályktun þar sem segir m.a. að niðurskurður í vegagerð sé reiðarslag. Verktakastarfsemi hvers konar hafi orðið fyrir einna mestum búsifjum í kreppunni.

Samtökin skora á ríkisstjórnina að taka ákvörðun sína um 12 milljarða niðurskurð til samgöngumála til endurmats.

Í ályktuninni segir að þegar mest hafi verið hafi um 16 þúsund mann starfað í mannvirkjagerð en nú stefni fjöldinn í 4.000 manns. „Þúsundir manna hafa þegar misst vinnuna undanfarna mánuði hjá fyrirtækjum eins og Ístak, ÍAV, Loftorku, Hlaðbæ-Colas, Klæðningu, Hektar, Háfelli, Ásberg, Nesprýði, - öll þessi fyrirtæki þurfa skýr svör fyrir 1. júlí um verkefnin framundan," segir í ályktuninni.

Fyrir þann tíma þurfi að taka ákvörðun um hvort segja þurfi upp mörg hundruð starfsmönnum til viðbótar.

„Niðurskurður er óumflýjanlegur í okkar þjóðfélagi eins og staðan er orðin, en óþolandi er að hann bitni allur á mannvirkjagreinum. Þeim byrðum verður að dreifa og þar á opinber rekstur síst að vera undanskilinn," segir m.a. í ályktuninni.