Seðlabanki Íslands telur að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2011 geti að óbreyttum lögum haft áhrif á hagskýrslugerð Seðlabankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum. Eins og greint var frá fyrr í dag hefur áfrýjunarnefnd samkeppnismál staðfesta ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um 1,5 milljóna dagsektir á Seðlabankann þar sem hann vildi ekki veita eftirlitinu upplýsingar.

Í tilkynningunni segir orðrétt:"Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2011 er nú til skoðunar í Seðlabanka Íslands. Það er mat Seðlabankans að úrskurðurinn muni að óbreyttum lögum hafa áhrif á þá starfsemi Seðlabankans sem felst í hagskýrslugerð. Rík trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ríkisstofnunum sem sinna opinberri hagskýrslugerð og skulu upplýsingar sem aflað er til hagskýrslugerðar eingöngu notaðar í slíkum tilgangi. Þessi meginregla kemur fram í lögum nr. 163/2007 sem fjalla um opinbera hagskýrslugerð og er m.a. byggð á verklagsreglum sem byggja á tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Í því felst að verklagsreglurnar gilda fyrir íslensk stjórnvöld og opinberar stofnanir sem fást við opinbera hagskýrslugerð á Íslandi. Úrskurður áfrýjunarnefndarinnar verður því skoðaður vandlega í ljósi hinnar ríku trúnaðar- og þagnarskyldu, m.a. hvort óhjákvæmilegt sé að vísa málinu til  dómstóla."