Seðlabanki Íslands segir það ekki vera brot gegn lögum né reglum að Eignarhaldsfélag bankans hafi selt kröfu á hendur breska viðskiptamanninum Kevin Stanford til félags á Bresku Jómfrúreyjum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var félagið Shineclear Holdings Limited stofnað á Tortóla, sem er ein af eyjunum í sjálfstjórnarsvæðinu Bresku jómfrúreyjum, sem skilgreind eru sem lágskattasvæði hjá íslenskum stjórnvöldum.

Viðskiptablaðið sagði jafnframt frá því á sínum tíma að krafan er nú komin í hendurnar á Kaupþingi sem árum saman hefur deilt um uppgjör við Stanford. Seðlabankinn hafði áður keypt kröfuna út úr slitabúi VBS örfáum vikum fyrr að því er Morgunblaðið greinir frá.

„[H]vorki lög né reglur hindra ESÍ eða aðra að gera samkomulag við félög á Bresku Jómfrúreyjum,“ segir í bréfi Seðlabankans við fyrirspurn blaðsins. „Í því sambandi má benda á að í gildi er samningur um upplýsingaskipti er varðar skatta á milli Bresku Jómfrúaeyja og Íslands frá 2011.“