Samtök iðnaðarins (SI) hafa ritað ríkisbönkunum bréf þar sem spurt er um meðhöndlun og fyrirgreiðslu til fyrirtækja í eigu bankanna en samtökin segja að fjölmörg fyrirtæki séu rekin af bönkunum, ýmist beint eða óbeint.

„Það vekur upp margar spurningar um hvernig það er gert, ekki síst hvort það leiði til óeðlilegrar og óheilbrigðar samkeppni við önnur fyrirtæki,“ segir á vef SI í dag.

Í bréfinu spyrja samtökin hvort þessi fyrirtæki sitji við sama borð þegar kemur að mati við peningalega fyrirgreiðslu og hvort bankarnir beiti sér fyrir að beina viðskiptum 3ja aðila til þeirra.

„Fyrirspurn þessi er send í kjölfar sögusagna um að bankarnir veiti eigin fyrirtækjum ríflega fjárhagslega fyrirgreiðslu og skilyrði jafnvel fyrirgreiðslu til 3ja aðila því að viðskiptum sé beint til þessara fyrirtækja,“ segir á vef SI.

Sjá nánar á vef SI.