„Rétt er að rifja upp að þegar Magma Energy festi fyrst hlut í HS Orku fyrir nokkrum misserum tók hluti ríkisstjórnar og alþingismanna því afar illa og fann flest til foráttu. Enn eru þeir sömu við sitt heygarðshorn. Sem betur fer ráða þeir ekki för í þessu máli,“ er haft eftir Jóni Steindóri Valdimarssyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, í tilkynningu frá samtökunum.

„Það er sérkennilegt að á sama tíma og við berjumst við að auka traust á Íslandi og við blasir að við þurfum sárlega á erlendum fjárfestingum að halda skuli annar helmingur stjórnarliðsins bregðast við með þeim hætti sem heyra má og sjá í fjölmiðlum,“ segir Jón Steindór í tilkynningunni.

Hann segist fagna því að erlendt fé komi til landsins og Íslendingar eigi að vinna með erlendum fjárfestum að uppbyggingu atvinnulífsins. Ramminn um starfsemi þeirra sé í höndum Íslendinga og gera eigi sömu kröfur til þeirra sem hingað komi og þeirra sem hér eru fyrir.