„Það var eins og við manninn mælt að ekki var fyrr búið að leggja skattinn á að í ljós kom að hann var alls enginn sykurskattur eins og stjórnvöld vildu vera láta“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI) í erindi frá samtökunum en þar kemur fram að í sumar ákvað   ríkisstjórnin að endurvekja gamla vörugjaldskerfið, reyndar með tvöföldum þunga, og leggja gjöld á ýmsar matvörur.

„Það var gert undir formerkjum lýðheilsu og þess að verið væri að skattleggja óhollustu. Þrátt fyrir hörð mótmæli, ekki síst úr ranni Samtaka iðnaðarins, var ákveðið að fara þessa leið,“ segir í erindinu.

Jón Steindór segir að skatturinn hafi verið lagður jöfnum höndum á vörur með sykri og þær sem voru án sykurs. Þá hafi stórir vöruflokkar verið undanskildir þrátt fyrir að innihalda sykur.

Samtök iðnaðarins segja að þessi „gamaldags handahófskennd skattheimta“ hafi haft þann stóra galla að brengla samkeppnisstöðu einstakra vöruflokka og leggjast með mestum þunga á nokkur íslensk framleiðslufyrirtæki.

Þá kemur fram að ríkisstjórnin sé að semja tillögur sínar um breytingar á skattheimtu og skattkerfi sem lagðar verða fyrir Alþingi á næstu dögum. Ef marka megi þær hugmyndir sem hafa verið viðraðar er ein af þeim sú að hækka virðisaukaskatt sérstaklega á þeim matvörum sem vörugjöld voru lögð á í sumar. Því eigi enn að höggva í sama knérunn og enn eigi að beina spjótum sínum að innlendri framleiðslu og íslenskum iðnfyrirtækjum sérstaklega.

„Samtök iðnaðarins hafa, eins og í sumar, bent á að skynsamlegast og einfaldast sé fyrir allra hluta sakir að fara aðrar leiðir,“ segir Jón Steindór.

„Í fyrsta lagi er rétt að halda þeirri kerfisbreytingu sem var gerð fyrir tveimur árum að hafa allar matvörur í sama skattþrepi. Nú er öll matvara í 7% virðisaukaskattþrepi. Þurfi meiri tekjur af virðisaukaskattskerfinu er skynsamlegast að gera það með því að hækka núverandi þrep.

Í öðru lagi að fella niður öll vörugjöld sem nú eru lögð á matvæli undir því yfirskyni að þau innihaldi sykur en neyslu hans þurfi að minnka. Þess í stað verði lagður á raunverulegur sykurskattur á allan innfluttan sykur og sykraðar vörur. Kerfið verði án undantekninga. Þannig næst jafnræði milli vöruflokka og spjótum er beint að sykrinum sjálfum.

Með þessu móti nást því fram öll megin markmið málsins. Auknar skatttekjur, sanngjörn dreifing skattbyrðarinnar og markmið um að sporna við notkun og neyslu sykurs.“