Jón Steindór Valdimarsson , framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að í fljótu bragði beri gjaldeyrislögin sem afgreidd voru frá þingi í nótt þess glögg merki að menn hafi ekki trú á því sem verið er að gera í gjaldeyrismálum.

„Þetta sýnir einnig hve erfitt það er að hafa krónuna sem gjaldmiðil," sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið í morgun. Hann tók þó fram að hann hefði ekki haft tök á því að fara ítarlega í gegnum lögin.

Samkvæmt lögunum er Seðlabankanum heimilt í samráði við viðskiptaráðherra að setja reglur sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga á milli landa. Sú heimild gildir til 30. nóvember 2010.