*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Innlent 8. apríl 2020 11:39

Til hjálpar smærri fjármálafyrirtækjum

Seðlabankinn býður tímabundið upp á veðlán til fjármálafyrirtækja. Gert til að styðja smærri fjármálafyrirtæki í gegnum COVID-19.

Sveinn Ólafur Melsted
Ásgeir Jónsson, bankastjóri Seðlabanka Íslands.
Gígja Einarsdóttir

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að bjóða tímabundið upp á sérstaka lánafyrirgreiðslu í formi veðlána til fjármálafyrirtækja. Samhliða verði hæfi veða tímabundið útvíkkað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar bankans og í yfirlýsingu peningastefnunefndar er lýst yfir stuðningi við þessi tilmæli fjármálastöðugleikanefndar. 

Í tilkynningu frá Seðlabankanum vegna málsins segir að fyrsta útboðið verði haldið 22. apríl 2020. Þetta sé gert til að bregðast við því fordæmalausa ástandi sem nú varir og til þess að bjóða fjármálafyrirtækjum tímabundið aukinn aðgang að lausafé. Lausafjárstaða fjármálafyrirtækja sé nú traust en vegna óvissu um framvinduna sé mikilvægt að Seðlabankinn hafi slíkt úrræði til reiðu.

Í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar kemur jafnframt fram að eiginfjáraukar vegna kerfisáhættu (3%) og kerfislegs mikilvægis (2%) haldist óbreyttir. Endurmat á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum staðfesti kerfislegt mikilvægi Arion banka, Íslandsbanka, og Landsbankans.

Bankinn muni jafnframt útvíkka tímabundið veðlista bankans, þ.e. bæta við þann lista eigna sem hann metur hæfar sem tryggingar í veðlánum. Til samræmis við ofangreint muni Seðlabanki Íslands breyta reglum nr. 1200/2019 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands. Telji Seðlabankinn ekki lengur þörf á úrræðinu eins og það sé sett fram geti hann lagt það niður eða breytt því.

Hjálpar smærri fjármálafyrirtækjum

Að sögn Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, er Seðlabankinn með þessum aðgerðum að búa sig undir að geta hjálpað smærri fjármálafyrirtækjum varðandi lausafjárfyrirgreiðslu ef á þarf að halda.

„Með þessu er Seðlabankinn að fara hefja veðlánaviðskipti. Þessar aðgerðir miða að því að Seðlabankinn geti veitt öðrum fjármálastofnunum en bönkunum þremur lausafjárfyrirgreiðslu. Og þannig út regnhlífina svo fleiri aðilar geti leitað skjóls hjá bankanum - ef svo má að orði komast.  Þær opna sömuleiðis á það Seðlabankinn geti tekið sértryggð bréf bankanna sem veð. Það var vissulega leyft áður en með ákveðnum takmörkunum. Auk þess opna aðgerðirnar á að Seðlabankinn geti tekið einstök lánasöfn sem veð. Með þessu getur Seðlabankinn til að mynda stutt við sparisjóðina og önnur minni fjármálafyrirtæki í landinu."

Fryst lán teljist ekki sem vanskil

Í yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans er þeim tilmælum komið á framfæri að fryst lán einstaklinga og fyrirtækja þurfi ekki endilega að teljast til vanskila, vegna COVID-19.

„Í samræmi við það sem er verið að gera í Evrópu, er verið að veita undanþágur fyrir lán til heimila og fyrirtækja þar sem veittur er greiðslufrestur. Yfirleitt hefur reglan verið sú að lán sem veittur er greiðslufrestur á eru skráð í vanskilum og þ.a.l. þurfa bankarnir að leggja meira eigið fé til hliðar. Hér er því verið að veita bönkunum sérstaka tímabundna undanþágu, með því að lækka eiginfjárkvaðir vegna lána sem hefur verið ívilnað, þ.e. veittur frestur á greiðslu afborgana og vaxta vegna COVID-19," útskýrir Ásgeir. „Það ætti að gera bönkunum enn auðveldara fyrir að endurskipuleggja lánasöfn sín í kjölfar þess efnahagsáfalls sem faraldurinn hefur í för með sér.“  

Helstu upplýsingar um veðlán og breytingar á veðlista

Í tilkynningu Seðlabankans er farið yfir helstu upplýsingar um framkvæmd veðlánanna, auk þess sem vikið er að helstu breytingum sem gerðar verði á veðlista bankans.

Helstu upplýsingar um framkvæmd veðlánanna:

 • Vikulega verða boðin veðlán til 7 daga og 3 mánaða.
 • Lánin bera veðlánavexti sem nú eru 2,5% en breytingar á vöxtum fylgja vaxtaákvörðunum peningastefnunefndar.
 • Viðskiptadagar verða miðvikudagar og fá mótaðilar senda tilkynningu um veðlánaútboð daginn áður.
 • Vextir breytast ekki á lánstímanum.
 • Lánin eru ekki uppgreiðanleg fyrir gjalddaga.
 • Ekki er hægt að nota tryggingar sem falla á gjalddaga á lánstímanum.
 • Telji Seðlabankinn þörf á að breyta fyrirkomulagi útboðanna mun hann tilkynna það sérstaklega.

Helstu breytingar sem gerðar verða á veðlista bankans:

 • Vikið verður frá skilyrðum m.a. um viðskiptavakt og fjárhæðartakmarkanir sem núverandi reglur setja sértryggðum bréfum.
 • Hægt verður að leggja peningamarkaðslán ríkissjóðs hjá viðskiptabönkunum með allt að þriggja mánaða lánstíma að veði.
 • Hægt verður að leggja veðgerninga með veði í lánasöfnum að veði fyrir lánum til 3 mánaða. Umræddir veðgerningar verða á stöðluðu formi sem Seðlabankinn útvegar.
 • Breytingar verða gerðar á frádragi og það birt á heimasíðu bankans þegar breytingar hafa verið gerðar á reglum nr. 1200/2019.