Stuðningur við upptöku evru hér á landi er áfram mikill samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins.

Rúmlega 55% eru fylgjandi evru en 30% á móti. Óákveðnir eru 14%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Samkvæmt tilkynningunni hljómaði spurningin á þessa leið: „Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi í stað íslensku krónunnar?“

Samkvæmt gögnum sem fylgja tilkynningu SI voru 800 þátttakendur í könnuninni en þar af voru 74 sem ekki tóku afstöðu. Þannig svöruðu 726 manns spurningunni.

Í tilkynningu frá SI kemur fram að þegar afstaða er skoðuð eftir kynjum kemur í ljós að karlar eru hlynntari upptöku gjaldmiðilsins en konur. Þeir telja tæp 63% en konur 48%. Þá eru um 33,7% karla og 24,3% kvenna sem segjast vera „mjög hlynntir“ upptöku evru hér á landi.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að meirihluti þeirra sem eru með yfir 800 þúsund krónur í laun á mánuði eru fylgjandi evru, eða 63% og 24% eru á móti. Þá eru 32,3% þeirra sem eru með yfir 800 þúsund krónur í laun á mánuði „mjög hlynntir“ upptöku evru hér á landi.

Þá er helmingur þeirra sem hafa undir 250 þúsund krónum í mánaðarlaun fylgjandi gjaldmiðlinum en 40% á móti.

Þá kemur fram að um 78% stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru hlynntir því að taka upp evru en 13% eru því andvígir. Þegar litið er til  stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru 50% hlynntir en 35% þeirra eru því andvígir.