*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 28. október 2019 15:04

SÍ um meintan gagnaleka

Seðlabankinn segir ekki liggja fyrir að upplýsingum hafi verið lekið úr bankanum til fjölmiðla.

Ritstjórn
Samkvæmt niðurstöðu innri rannsóknar Seðlabankans er ekki hægt að fullyrða að upplýsingum hafi verið lekið.
Haraldur Guðjónsson

„Rannsókn bankans sýndi hins vegar að þessum pósti var ekki svarað. Það er því ekkert sem liggur fyrir um að upplýsingum hafi verið lekið frá Seðlabankanum enda ljóst að téð húsleit var á vitorði margra.“ 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu frá Seðlabanka Íslands um meintan gagnaleka úr bankanum til fréttastofu RÚV. Pósturinn sem vísað er til hér að ofan er ástæða þess að forsætisráðherra tilkynnti ætlaðan upplýsingaleka til lögreglu. Í yfirlýsingunni segir að innri rannsókn Seðlabankans hafi leitt í ljós að starfsmaður bankans hafi átti í samskiptum við fréttamann RÚV áður en húsleit fór fram hjá Samherja. 

„Nánar tiltekið fólust samskiptin í því að fréttamaðurinn sendi uppkast að frétt með tölvupósti þar sem húsleitarinnar var getið – daginn áður en hún fór fram. Rannsókn bankans sýndi hins vegar að þessum pósti var ekki svarað,“ segir í yfirlýsingunni

Það að starfsmaðurinn hafi ekki svarað umræddum pósti fréttamannsins þýðir skv. niðurstöðu rannsóknar bankans að ekkert sé hægt að fullyrða um hvort starfsmaðurinn hafi lekið gögnum. Þá segir að þótt forsætisráðuneytið hafi upplýst lögreglu um niðurstöðu rannsóknar Seðlabankans þá hafi ráðuneytið ekki tekið efnislega afstöðu til rannsóknarinnar. 

„Málið er litið mjög alvarlegum augum af hálfu Seðlabanka Íslands. Innan bankans hefur allt verið gert til þess að upplýsa það. Forsætisráðherra og bankaráði Seðlabankans var greint frá niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar. Seðlabankinn telur jafnframt eðlilegt að forsætisráðuneytið hafi upplýst lögreglu um þessa sömu niðurstöðu.

Jafnframt hefur forsvarsmönnum Samherja verið greint frá niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar. Þau bréf sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlaumræðu eru málsskjöl sem Seðlabankinn hefur að eigin frumkvæði lagt fram í því skaðabótamáli sem höfðað hefur verið vegna málareksturs bankans á hendur Samherja hf.

Að öðru leyti telur Seðlabankinn rétt að frekari umfjöllun um málið eigi sér stað undir rekstri málsins hjá dómstólum.“ 

Stikkorð: Seðlabankinn gagnaleki húsleit