Samtök iðnaðarins segja mikið ójafnræði felast í nýju frumvarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem liðkar fyrir beinni sölu íslenskra framleiðenda á áfengi til viðskiptavina á framleiðslustöðvar sínar.

Vilja samtökin að í stað framleiðsluhámarks sem skilyrði fyrir nýjum framleiðslusöluleyfum verði miðað við selda lítra á hverjum stað, en þau vilja jafnframt að opnað verði fyrir auglýsingar á áfengi.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær telur Félag atvinnurekenda mismunun felast í frumvarpinu, m.a. gagnvart innflytjendum frá öðrum EES löndum, sem og frá framleiðendum yfir hámarkinu í magni og áfengisstyrk.

Framleiðsluhámark og auglýsingabann gagnrýnt

SI gera sömuleiðis alvarlegar athugasemdir við takmarkanirnar sem eru í frumvarpinu til breytinga á áfengislögum í sinni umsögn , og leggja jafnframt ríka áherslu á mikilvægi þess að íslenskum framleiðendum verði gert kleift að auglýsa vöru sína líkt og erlendir framleiðendur geti gert.

Þó segja samtökin að þau fagni fyrirætlunum frumvarpsins um að auðvelda handverksbrugghúsum sölu á sínum framleiðslustöðum, sem og að þau séu almennt hlynnt verslunarfrelsi, þar á meðal í sölu á áfengi.

Loks segja samtökin það skjóta skökku við að setja framleiðsluhámark sem sum handverksbrugghús sem eigi að styðja við með frumvarpinu séu þegar farin yfir sem útiloki þá framleiðendur eða setji neikvæðan hvata til að vera undir þeim mörkum með tilheyrandi fækkun starfa eða með því að skipta framleiðslunni upp í fleiri einingar.

Leggja þau því til að í staðinn verði framleiðslusöluleyfið sett á grundvelli seldra lítra á hverjum framleiðslustað, þá væntanlega

SI segja sömuleiðis að takmarkanir á framleiðslusöluleyfi fyrir sterkara áfengi en sem nemur 12% af hreinum vínanda að rúmmáli og að það taki einungis til áfengis gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni feli í sér mikið ójafnræði fyrir fjölda íslenskra áfengisframleiðenda.

Jafnframt hindri frumvarpið samkeppni innlendrar verslunar við þá erlendu sem sé þvert á þær nauðsynlegu breytingar sem fjallað sé um í frumvarpinu að nauðsynlegt sé að gera til að tryggja jafnræði milli aðilanna.