Á sérstökum félagsfundi Sambands íslenskra auglýsingastofa sem haldinn var nýlega var fjallað um athugasemdir sem Íslenska auglýsingastofan gerði við framkvæmd stjórnar SÍA á niðurfellingu félagsgjalda til fyrrverandi aðildarfélaga og varð til þess að stofan sagði sig úr samtökunum. Niðurstaða fundarins var sú að aðferðir SÍA við afgreiðslu slíkra mála verði endurskoðaðar og teknar upp skýrar og ákveðnar vinnureglur við meðhöndlun mála af þessu tagi þar sem auk þess að gæta hagsmuna aðildarfélaga SÍA, verði hugað að hagsmunum birgja og viðskiptavina stofanna.

Það er álit félagsfundar SÍA að gjaldþrot eða niðurfelling skulda geti, ef ekki er varlega farið, haft stórskaðleg áhrif í þeim viðkvæma atvinnurekstri sem auglýsingafagið er, og komið viðskiptalegu óorði á það. Því er nauðsynlegt að farið verði eftir skýrum vinnureglum við framkvæmd slíkra mála (Best Practice) segir í tilkynningu frá SÍA.

Það er einn megintilgangur SÍA að vinna að og viðhalda góðum viðskiptaháttum í auglýsingafaginu. Stjórn SÍA mun á næstunni beita sér fyrir viðræðum allra hagsmunaaðila, þ.e.a.s. fulltrúa fjölmiðla, prentsmiðja og annarra birgja og viðskiptavina auglýsingastofanna um hvernig eðlilegast sé að meðhöndla slík mál sem upp kunna að koma í framtíðinni, öllum aðilum til hagsbóta.

Í framhaldi af því hefur Íslenska auglýsingastofan ákveðið að vera áfram innan vébanda Sambands íslenskra auglýsingastofa og mun taka fullan þátt í framtíðarstörfum innan SÍA í samstarfi við stjórn og aðra félagsaðila.