SÍA II, sem er framtakssjóður í eigu lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og fagfjárfesta, hefur keypt 35% hlut í ferðaþjónustufyrirtækinu Kynnisferðum. Hluturinn var keyptur af fjárfestingafyrirtækinu Alfa hf. Þeir Steinn Logi Björnsson, forstjóri flugfélagsins Bluebird, og Benedikt Ólafsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Stefni, koma í kjölfarið inn í stjórn félagsins.

„Rekstur Kynnisferða hefur tekið miklum breytingum á liðnum árum og hefur félagið ráðist í umtalsverðar fjárfestingar til að mæta vexti í ferðaþjónustu á Íslandi. Við munum halda áfram að stækka og efla félagið á komandi árum og töldum því rétt að fá inn nýja hluthafa í félagið á þessum tímapunkti. Við fögnum aðkomu nýrra fjárfesta og teljum að innkoma þeirra muni styrkja félagið verulega til framtíðar,“ segir Kristján Daníelsson, forstjóri Kynnisferða, í tilefni af kaupum SÍA II.

„Ferðaþjónusta á Íslandi er í miklum vexti og er orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins,“ segir Benedikt Ólafsson. „Kynnisferðir eru leiðandi fyrirtæki á sínum markaði og við erum mjög ánægðir með að hafa klárað fjárfestingu í félaginu. Við sjáum frekari tækifæri í rekstri þess á næstu árum og hlökkum til að vinna með öðrum hluthöfum og stjórnendum að framgangi þess,“ segir Benedikt.

Kynnisferðir voru stofnaðar árið 1968, en starfsmenn félagsins eru 300 talsins. Þorri rekstrarins er undir merkjum Reykjavík Excursions sem býður upp á dagsferðir fyrir ferðamenn auk áætlunaraksturs til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Bláa Lóninu.

Í tilkynningu kemur fram að BBA Legal og KPMG hafi veitt kaupendum ráðgjöf við kaupin en ráðgjafar seljenda voru Icora Partners og Atlantik lögmannsþjónusta.

SÍA II er í rekstri Stefnis.