Samband íslenskra auglýsingastofa hefur sent frá sér tilkynningu vegna kæru Ölgerðarinnar á hendur tveimur karlmönnum vegna meintra fjársvika. Vill sambandið koma þeirri leiðréttingu á framfæri að annar maðurinn starfi ekki á auglýsingastofu, líkt og fullyrt var í fréttum, heldur á markaðsstofu. Hún sé ekki hluti af Sambandi íslenskra auglýsingastofa.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun gengur stofan undir nafninu Vert markaðsstofa en hún gaf frá sér yfirlýsingu vegna málsins . Þar er því haldið fram að aldrei hafi það verið ásetningur af hálfu markaðsstofunnar að valda Ölgerðinni tjóni og málið skrifist á gáleysi í samskiptum hennar við starfsmann Ölgerðarinnar.

Tilkynning SÍA í heild:

„Vegna frétta um að Ölgerðin hafi kært tvo einstaklinga, annan starfsmann á auglýsingastofu, fyrir fjársvik vill SÍA, Samband íslenskra auglýsingastofa, koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri.

Stofan sem um ræðir er ekki auglýsingastofa heldur markaðsstofa og er ekki hluti af Sambandi íslenskra auglýsingastofa.

Virðingarfyllst
Stjórn SÍA“