Viðræðurnar, sem kenndar eru við höfuðborg Katar þar sem að þær hófust árið 2001, snúast um lækkun tolla í alþjóðaviðskiptum. Að undanförnu hafa tvær meginfylkingar tekist á í viðræðunum: Annars vegar aðildarríki Evrópusambandsins (ESB), Bandaríkin og Japan og hins vegar G20-hópur nýmarkaðsríkja en Indland, Kína, Brasilía og Suður-Afríka eru helstu fulltrúar þeirra í viðræðunum.

Deilan snýst um aðgengi þeirra fyrrnefndu að vöru- og þjónustumörkuðum þeirra síðarnefndu sem svo krefjast aukins aðgengis að landbúnaðarmörkuðum Vesturlanda. Peter Mandelson, viðskiptakommissar framkvæmdastjórnarnar ESB, lýsti því yfir í gær að sambandið væri reiðubúið að skera niður tolla á landbúnaðarafurðum um 60% gegn því að nýmarkaðsríki geri hið sama fyrir iðnaðarframleiðslu og þjónustu.

Susan Schwab, viðskiptafulltrúi Bandaríkjanna, lýsti því jafnframt yfir að stjórnvöld í Washington væru reiðubúin að gefa eftir kröfur sínar, geri nýmarkaðsríki slíkt hið sama. Hún ítrekaði þá afstöðu að árangur ætti að nást á grunni frekara frjálsræðis í alþjóðaviðskiptum í stað þess að snúast um sátt um minni niðurgreiðslur til einstakra geira atvinnulífsins.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .