Seðlabanki Íslands hefur gefið út Fjármálatíðindi 2007 og verður það síðasta hefti útgáfunnar. Heftið er 54. árgangur, en síðustu tvo árganga hefur aðeins komið út eitt hefti á ári. Fjármálatíðindi komu fyrst út í september árið 1954 og höfðu það hlutverk að birta aðgengilegar upplýsingar og greinar um efnahag þjóðarinnar og fjármál, en þá hafði ekkert tímarit þennan tilgang, eins og fram kemur í fyrstu grein ritsins, sem er eftir Jóhannes Nordal og heitir Efnahagsástand á árdaga Fjármálatíðinda.

Í Fjármálatíðindum eru ennfremur greinar eftir Jónas H. Haralz, Áætlanagerð á dögum viðreisnar, eftir Þráin Eggertsson, Nýja hagkerfið, eftir Gylfa Zoega, Hugleiðingar um efnahagslega velferð, og eftir Arnór Sighvatsson, Að róa í hafstraumum alþjóðlegs fjármagns - Reynsla Íslands af framkvæmd peningastefnu í litlu opnu hagkerfi í hnattvæddum heimi.