Greiningardeild Glitnis telur að vaxtahækkun Seðlabankans þann 21. desember síðastliðinn hafi markað endalok þess vaxtahækkunarferlis sem hófst vorið 2004. Stýrivextir eru 14,25% og næsti vaxtaákvörðunar dagur er 8. febrúar.

?Bankinn mun svo taka að lækka stýrivexti undir mitt ár að okkar mati eða nánar tiltekið á vaxtaákvörðunardeginum 17. maí næstkomandi. Fyrst í stað mun bankinn fara sér fremur hægt en bæta heldur í taktinn þegar líður á árið og munu stýrivextir standa í 11,5% í lok ársins ef spá okkar gengur eftir. Áframhaldandi vaxtalækkunar er svo von á næsta ári,? segir greiningardeildin.

Óvissuþættir

Hún segir að óvissuþættir til hækkunar stýrivaxtaspárinnar eru helst áframhaldandi stóriðjuuppbygging og framhald á því ójafnvægi sem einkennt hefur þjóðarbúið. ?Verði ákveðið í vor að stækka álverið í Straumsvík mun það líklega letja Seðlabankann til mikillar vaxtalækkunar á þessu ári vegna aukinnar hættu á nýju þensluskeiði strax á næsta ári. Svipuð áhrif hefur ef hagtölur benda til að aukið aðhald peningastefnunnar undanfarið skili sér seint og illa í minni verðbólguþrýstingi,? segir greiningardeildin.

Þá eru óvissuþættir til lækkunar spárinnar fyrst og fremst hættan á skarpari samdrætti í þjóðarútgjöldum en flestir spá nú. ?Ef hætta á verulegu bakslagi í innlendri hagþróun eykst þannig vegna hérlendra eða erlendra áfalla má búast við að Seðlabankinn taki stærri skref til vaxtalækkunar en hér er spáð. Sömuleiðis myndu bjartari horfur um verðbólguþróun hvetja bankann til að lækka vexti myndarlega, enda vill hann væntanlega forðast verðstöðnun, hvað þá verðhjöðnun, á næstu misserum,? segir hún.