Greiningardeild Glitnis telur að stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag um 25 punkta sé sú síðasta í þessu hækkunarferli og að næsta skref hans verði að lækka vexti og að það gerist um miðbik næsta árs.

?Næsta ákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands um vexti verður birt fimmtudaginn 8. febrúar 2007. Teljum við að bankinn kjósi þá að halda vöxtum óbreyttum,? segir greiningardeildin.

?Hækkun vaxta bankans er í takti við það sem Seðlabankinn var búinn að boða í upphafi nóvember þegar hann gaf síðast út spá um verðbólgu. Aðgerðin er því til þess fallinn að undirbyggja trúverðugleika bankans.

Ekki er vanþörf á en bankinn hefur gefið í og dregur úr til skiptis hvað vaxtaákvarðanir varðar og skilaboðin sem felast í aðgerðum bankans hafa oft verið fremur misvísandi í þessu vaxtahækkunarferli. Í ljósi þess er ekki hægt að útiloka að bankinn hækki vexti frekar þótt við teljum það ólíklegt,? segir greiningardeildin.