Stærsta fasteignalánafyrirtæki Bandaríkjanna, Countrywide Financial tapaði um 893 milljón Bandaríkjadala (um 66 milljörðum ísl.króna) á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 434 milljóna dala hagnað (um 32 milljarðar ísl.króna) á sama tíma í fyrra.

Afskriftir félagsins námu um 3 milljörðum dala og segir Reuters fréttastofan að aldrei fyrr hafi félagið afskrifað jafn mikið á einum ársfjórðung. Countrywide hafði sett til hliðar 1,5 milljarð dala til að undirbúa afskriftir vegna undirmálslána.

Samkvæmt Reuters Estimates var gert ráð fyrir tapi upp á 12 centum á hvern  en tapið jafngildir 1,6 dölum á hvern hlut. Countrywide hefur tapað um 2,5 milljörðum dala á síðustu níu mánuðum.

Aukin vanskil

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu hafa vanskil aukist og er einn af hverjum ellefu lánþegum þess nú í vanskilum. Það er 100% aukning milli ára.

Þá er þriðji hver lánþegi eftir á greiðslum af lánum sínum án þess þó að hafa verið settir á vanskilaskrá.

Síðasta uppgjör Countrywide

Uppgjör Countrywide nú er líkast til það síðasta sem félagið birtir sem sjálfstætt félag en í janúar síðastliðnum var greint frá því að Bank of America myndi yfirtaka Countrywide .

Hluthafar Countrywide munu fá 0,18 hluti fyrir hvern hlut í Countrywide en þannig er félagið metið á 4 milljarða dali samkvæmt gengi þess í gær.