*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 23. júní 2019 11:01

Siðapostular

Það er aðeins eitt verra en siðlausir stjórnmálamenn, en það eru stjórnmálamenn sem þykjast vera siðapostular.

Ritstjórn
Höskuldur Marselíusarson

Það er aðeins eitt verra en siðlausir stjórnmálamenn, en það eru stjórnmálamenn sem þykjast vera siðapostular. Það þarf ekki að líta lengra en til Ráðhúss Reykjavíkur til þess að átta sig á því, en þar hefur forsætisnefnd borgarstjórnar lagt nótt við nýtan dag undanfarna mánuði til þess að semja nýjar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa.

Hér er afraksturinn:

1. Við vinnum fyrir fólkið í borginni og pössum upp á Reykjavík sem heimili komandi kynslóða.

2. Við erum heiðarleg, ábyrg, og sýnum gott fordæmi í okkar störfum.

3. Við kynnum okkur málin og mætum undirbúin til starfa.

4. Við segjum satt en gætum trúnaðar þegar trúnaður þarf að ríkja.

5. Við veitum almenningi og fjölmiðlum nauðsynlegar upplýsingar.

6. Við hugum að því að það sé gott að vinna hjá Reykjavíkurborg.

7. Við förum vel með fjármuni borgarinnar og eignir hennar.

8. Við virðum margbreytileikann og vinnum gegn hvers kyns fordómum.

9. Við sýnum kurteisi, tillitsemi og virðum einkalíf annarra.

10. Við biðjumst afsökunar á mistökum og hlýðum á afsökunarbeiðnir.

11. Við erum meðvituð um að við höfum ólíkar skoðanir.

                                              * * *

Sem sjá má dugði borgarstjórn ekki færri en 11 boðorð þar sem Guð almáttugur lét sér 10 nægja. Og skátarnir þurftu ekki meira en 10 lagagreinar heldur, sem sannast sagna eru mun skorinorðari og auk þess lausar við þessa yfirlætislegu væmni, sem einkennir hinar nýju siðareglur borgarstjórnar.

                                              * * *

Hitt er þó hálfu merkilegra, að í öllum þessum vaðli um hvað borgarfulltrúar séu skínandi fínt fólk að eðli og innræti, framgöngu og framkomu, þá er ekki orð um smáatriði eins og löghlýðni. Hvað þá frændhygli, jafnræði í störfum, gjafir og greiða, hagsmunaárekstra eða annað það sem helst þarf að varast í stjórnsýslu sveitarfélaga. Það er talað um trúnað, en ekki að það megi ekki misbeita honum, eins og dæmi eru um. Þar sem jafnvel borgarstjórinn bar blak af eineltistilburðum á fundum hjá ráðum borgarinnar, en fann helst að því að sagt hefði verið frá og því um trúnaðarrof að ræða!

                                              * * *

En kannski hegðun Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, fráfarandi forseta borgarstjórnar, segi mesta sögu, því um leið og hún var að fægja siðapostulageislabauginn, þá hefur hún dylgjað, bæði í fjölmiðlaviðtölum og borgarstjórn, um að eitthvað sé athugavert við fjárhagslega hagsmuni Eyþórs Arnalds, oddvita minnihlutans. Þar tókst henni að vera hvort tveggja í senn, siðlaus stjórnmálamaður og siðapostuli.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér