Ferðamennska og aðrir flutningar hafa skilað 29,1 milljarði króna meira af gjaldeyrisinnflæði í fyrra en árið 2012. Ef litiið er lengra aftur í tímann verður munurinn talsvert meiri. Samanlagt skiluðu samgöngur og ferðalög 110,7 milljarða króna afgangi, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að af þessu tölum Hagstofunnar sem og öðrum tölum er varða ferðaþjónustu sé ljóst að ferðamannaárið í fyrra hafi verið það gjöfulasta frá upphafi. Þannig höfðu tölur Ferðamálastofu Íslands sýnt að um metár var að ræða hvað snerti fjölda erlendra ferðamanna og var fjölgun þeirra hér á landi verulega umfram fjölgun á utanlandsferðum Íslendinga.

Þá bendir greiningardeildin á að tölur Seðlabankans um kortanotkun erlendra aðila hér á landi sýni að þeir hafa aldrei straujað kortin sín af jafn miklu kappi á einu ári og í fyrra. Notkun þeirra var nefnilega talsvert umfram kortanotkun Íslendinga í útlöndum, sem er afar sjaldséð. Kortaveltujöfnuður var jákvæður um 12,7 milljarða króna í fyrra sem er fjórtánfalt meiri afgangur en ári fyrr. Fyrir þann tíma hafði hann aðeins einu sinni áður mælst jákvæður, samkvæmt upplýsingum greiningar Íslandsbanka.