*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 22. mars 2015 14:35

Síðasta ferðin var fyrir tveimur árum

Forstjóri Isavia segir að í öllum tilvikum greiði maki sjálfur fyrir ferð sem hann fer með í ásamt starfsmanni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ferðir maka og ættingja stjórnenda Isavia komust í fréttirnar þegar Kastljós fjallaði um málið í síðustu viku. Björn Óli Hauksson, forstjóri fyrirtækisins, segist í viðtali við Viðskiptablaðið ekki hafa nákvæmar upplýsingar um það hversu oft makar starfsmanna fóru með í ferðir á vegum félagsins en segir að það hafi ekki verið oft. „Það kemur þó reglulega fyrir að makar fari í ferðir á vegum fyrirtækisins, en stóra línan hefur verið sú að makinn greiði eigin ferð. Fyrir kom að fyrirtækið lagði út fyrir ferðakostnaði, en hann var alltaf greiddur til baka og nær oftast kom greiðslan áður en fyrirtækið var búið að leggja út fyrir kostnaðinum. Svo má bæta því við varðandi sjálfan mig að síðasta ferð með maka var fyrir tveimur árum.“

Ríkisendurskoðandi hefur gert athugasemdir við það fyrirkomulag að fyrirtækið legði út fyrir ferðakostnaði þótt sá kostnaður væri greiddur til baka af starfsmanni eða maka og sagði að fyrirtækið ætti ekki að vera í lánastarfsemi sem þessari.

„Við skoðuðum þetta og komumst að því að þetta var aðeins í nokkur skipti sem þetta fyrirkomulag var viðhaft. Reyndar var tekin ákvörðun um að hætta þessu áður en athugasemd ríkisendurskoðanda kom fram og nú greiða makar fyrir eigin ferðir í öllum tilfellum strax. Það er alltaf spurning um það hvort makar eiga að fara með í ferðir sem þessar, hvort sem það er í tilvikum stjórnenda fyrirtækja, ráðherra eða annarra. Stundum eru ráðstefnur eða fundir erlendis sérstaklega skipulagðir þannig að gert er ráð fyrir því að maki geti farið með og þá er ákvörðun tekin um það hverju sinni hvort maki stjórnanda eigi að fara með í ferð eða ekki, en í öllum tilvikum greiðir makinn ferðina,“ segir Björn Óli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.