Sænski bankinn Handelsbanken AB rak forstjóra fyrirtækisins, hinn 48 ára gamla Frank Vang-Jensen, eftir einungis 18 mánuði í starfi og gekk stjórnarformaðurinn Paer Boman svo langt að segja að starfið hefði verið honum of stórt og erfitt og það hefðu verið mistök að ráða hann í starfið.

Þekktur fyrir stöðugleika

„Þetta hlýtur að koma á óvart, sérstaklega þar sem þetta í annað sinn á innan við einu og hálfu ári, sem þeir skipta um forstjóra,“ sagði Andreas Hakansson, greinandi hjá BNP Paribas í Stokkhólmi.

„Þetta er mikil breyting. Handelsbanken er þekktur fyrir að vera mjög stöðugur banki sem horfir til langrar framtíðar. Svona tíðar breytingar eru mikil viðbrigði.“

Hlutabréf féllu í verði

Féllu hlutabréf í bankanum um 1,6% í 106,90 sænskar krónur fljótlega í morgun, en aðalvísitalan í Svíþjóð fjéll jafnframt um 0,7%. Síðan Vang-Jensen tók við í mars á síðasta ári hafa hlutabréf í bankanum fallið um 22%.

Hins vegar hefur Bloomberg vísitalan fyrir fjármálafyrirtæki í Evrópu fallið um 37% á sama tíma. Á sama tíma hefur Nordea Bank AB, stærsti lánveitandi Skandinavíu tapað 26% á sama tímabili.

Útibússtjórar hafa frjálsar hendur

Stjórnarformaðurinn sagði að í bankanum fengi hver útibússtjóri að hafa mjög frjálsar hendur, sem kallar á „sérstaka gerð af leiðtoga“ sem væri mun flóknari en hefðbundin stjórnun.

Hins vegar virtist Vang-Jensen vera „að einblína á að gera mikið af ákvörðunum miðlæga,“ segir Kristin Dahlberg, greinandi hjá Jefferies International í Lundúnum. Sú aðferðafræði var ekki „ýmsum í stjórninni og útibússtjórum að skapi.“

Peningaviðskipti sérstaða bankans sem skorar hátt í ánægjukönnunum

Handelsbanken hefur fleiri útibú heldur en nokkur af keppinautum sínum, og hefur það verið þeirra sérstaða að vera með meira sjálfstæði sinna útibúa en aðrir bankar og einblína síður á stafræna þjónustu á netinu sem hefur orðið ráðandi víðast hvar.

Í landi þar sem sífellt færri nýta sér peningaviðskipti er Handelsbanken síðasta vígi þeirra. Hefur hann sífellt skorað hæst í könnunum á ánægju viðskiptavina meðal fjögurra stærstu lánastofnana landsins.

Nýr forstjóri bankans, Anders Bouvin, segir alls enga þörf á að breyta því fyrirkomulagi. „Hvernig við starfrækjum bankann aðskilur okkur á mjög greinilegan hátt frá keppinautum okkar.“