Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra vonast til að síðustu stóru bakreikningar hrunsins hafi þegar borist og gerir þá ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu í Icesave málinu. Þetta kemur fram í pistli Oddnýjar sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir Oddný að öllum hafi mátt vera ljóst að kostnaður gæti fylgt því að tryggja innistæður í hinum fallna sparisjóði, SpKef. Í því samhengi segist hún vonast til að rannsóknarnefnd á vegum Alþingins sem nú kannar aðdraganda og orsakir falls sparisjóðanna muni veita haldbærar skýringar á orsökum þess bakreiknings til skattgreiðenda sem fall sparisjóðsins skilur eftir sig.

Í grein sinni beinir Oddný spjótum sínum að hagstjórn síðustu ára og segir viðsnúning hafa orðið í þeim málum. Þar hampar hún svokallaðri blandaðri leið niðurskurðar og skattkerfisbreytingar sem hún segir hafa komið í veg fyrir óbærilegan niðurskurð í velferðarkerfinu.

"Í fyrsta lagi náðist 8% raunlækkun á ríkisútgjöldum frá árinu á undan. Það verður að teljast mikilsverður árangur af því sem þjóðin hefur þurft að leggja á sig til að fjármagna hagstjórnarmistök fyrri ára. Þetta er einnig til marks um skynsemi þeirrar blönduðu leiðar niðurskurðar og skattkerfisbreytinga sem nauðsynlegar voru í kjölfar hrunsins. Blönduðu leiðinni hefur nú verið hampað af flestum sem um hana fjalla," segir í pistli Oddnýjar.

Greinina má í heild sinni lesa hér .