Bjarni Ólafsson AK kom um helgina með makrílfarm sem líklega verður sá síðasti sem berst til Neskaupstaðar á þessari vertíð.

Þetta kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar en afli skipsins var 260 tonn og fékkst hann í íslenskum sjó, um 160 mílur norðaustur af Dalatanga.

Runólfur Runólfsson skipstjóri segir í spjalli við heimasíðuna að nú megi gera ráð fyrir að vertíðinni sé lokið.

„Við fengum þennan afla á þremur dögum. Það var tekið eitt hol á dag, kastað um hádegisbil og híft um kvöldmatarleytið. Við fengum 120 tonn í einu holi en síðan voru 65 og 75 tonn í hinum tveimur. Það var ekki mikið af makríl þarna á ferðinni og fiskurinn var afar dreifður. Það má segja að makrílvertíðin hafi gengið vel en áberandi var að fiskurinn var miklu dreifðari en undanfarin ár. Hægt er að þakka samstarfi skipanna, sem lönduðu hjá Síldarvinnslunni, fyrir árangurinn á vertíðinni. Samstarfið var lykillinn að góðum árangri en það felur í sér að afla allra skipanna var dælt um borð í eitt þeirra hverju sinni,“ segir Runólfur.

Næst á dagskránni hjá áhöfn Bjarna Ólafssonar eru síldveiðar.