Í dag er síðasti séns fyrir fólk að senda pakka utan Evrópu, eigi þeir að ná á áfangastað fyrir jólin. Fólk sem hyggst senda pakka innan Evrópu hefur þó tíma til 12. desember og þeir sem senda til Norðurlandanna geta sent til 13. desember. Kort og pakka innanlands með A-pósti þarf að senda í síðasta lagi 19. desember. Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Íslandspósts, segir fólk oft á síðustu stundu fyrir jólin.

„Það er mjög algengt að fólk streymi í hús til okkar á þessum síðustu dögum sem má senda innanlands og til útlanda,“ segir Brynjar Smári og bendir um leið á að jólapósthúsin verða á sínum stað í Kringlunni og Smáralind en þau verða sett upp á mánudaginn og síðan á Glerártorgi en það verður sett upp á fimmtudaginn.