Frestur til að sækja um þátttöku í nýsköpunarverkefninu Startup Reykjavík rennur út í dag.

Startup Reykjavík fer nú fram öðru sinni og verða tíu fyrirtæki valin til þátttöku. Arion banki mun fjárfesta í hverju þeirra fyrir tvær milljónir króna gegn 6% eignarhlut. Fyrirtækin fá að auki skrifstofuaðstöðu í þær tíu vikur sem verkefnið stendur yfir og njóta leiðsagnar yfir 50 leiðbeinenda úr háskóla- og atvinnulífinu.

Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Arion banka og nýsköpunar- og frumkvöðlasetranna Innovit og Klaks. Arion banki leggur til fjármagn og aðstöðu en framkvæmdin er í höndum frumkvöðlasetranna. Verkefnið er hluti af Global Accelerator Network sem er alþjóðlegur hluti starfsemi Techstars í Bandaríkjunum.