Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Sidekick Health hefur tryggt sér 55 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar um 7 milljörðum króna, í svokallaðri B-fjármögnunarumferð til að styðja við áframhaldandi vöruþróun og vöxt, sérstaklega í Bandaríkjunum.

Fjármögnunarumferðin er leidd af Novator Ventures en samhliða henni mun Birgir Már Ragnarsson, stofnandi og eigandi Novator Ventures, taka sæti í stjórn Sidekick. Birgir hefur mikla reynslu af því að vinna náið með stofnendum að því að byggja upp fyrirtæki í hröðum vexti. Hann leiðir fjárfestingar Novator Ventures og situr í stjórn fjölda vaxtarfyrirtækja, þar á meðal Monzo Bank, Bloom & Wild, Cazoo, Zwift, Rebag, Applovin, Klang Games, Nord Security, Numan, Lockwood, Touchlight og Tier mobility.  Birgir er auk þess stofnandi og stjórnarformaður hugmyndahússins Grósku.

Erlendu vísisjóðirnir Wellington Partners og Asabys Partners, sem leiddu 20 milljóna dala fjármögnunarumferð Sidekick árið 2020, tóku einnig þátt í nýju umferðinni ásamt Frumtaki Ventures. Eitt stærsta sjúkratryggingafélag Bandaríkjanna bætist einnig í fjárfestahópinn samhliða vaxandi viðskiptasambandi fyrirtækjanna.

Samtals hefur Sidekick sótt rúmlega tíu milljarða króna til innlendra og erlendra vísisjóða á tæpum tveimur árum til að styðja við öran vöxt félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum, en félagið hefur nú einnig sett upp starfstöðvar í Berlín, Boston og nú síðast í Stokkhólmi.

Starfsmannafjöldinn hefur aukist úr rúmlega 30 í 150 á tímabilinu og mest hefur aukningin verið hér á landi, en nú starfa um 130 manns hjá félaginu í höfuðstöðvum Sidekick á Íslandi.

Viðtal við Sæmund Oddsson, annan stofnenda Sidekick Health, má finna í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .