MindGeek, eitt stærsta klámfyrirtæki heims sem heldur úti klámsíðunni PornHub, hefur verið selt til kanadíska framtakssjóðsins Ethical Capital Partners. Eins og nafnið gefur til kynna segist fjárfestingarsjóðurinn sérhæfa sig í fjárfestingum í geirum sem krefjast siðferðislegrar leiðtogahæfni og staðfestu.

Í umfjöllun Financial Times segir að MindGeek, sem er skráð í Lúxemborg, hafi borið höfuð og herðar yfir aðra í klámiðnaðinum frá tilkomu myndstreymis. Félagið hefur þó átt erfitt uppdráttar að undanförnu vegna málssókna sem varða klámmyndbönd einstaklinga undir lögaldri.

Samkvæmt síðustu opinberu fjárhagstölum námu tekjur félagsins 460 milljónum dala, eða nærri 65 milljörðum króna, árið 2018 en hagnaðarhlutfallið hefur oft á tíðum verið í kringum 50%, samkvæmt heimildarmönnum FT.

MindGeek var áður í meirihlutaeigu Bernd Bergmair, sem starfaði áður hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs.

Ethical Capital Partners vildi ekki upplýsa um kaupverðið né heldur hvernig fjárfestingarsjóðurinn fjármagnaði kaupin. Meðal stjórnenda sjóðsins eru lögmenn og aðilar sem fjárfestu áður í kannabisiðnaðinum.

Solomon Friedman, lögmaður og meðstofnandi Ethical, sagði við FT að fjárfestingarsjóðurinn vilji stuðla að gegnsæi í klámiðnaðinum. Hann telur að lögsóknirnar stafi af misskilningi um hvernig fyrirtækið tryggi lögmæti myndefnis á síðunni.