*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 30. október 2021 18:03

Siðferðisgáttin eigi erindi alls staðar

Með Siðferðisgáttinni getur starfsfólk tilkynnt óæskilega háttsemi eða vinnutengda vanlíðan beint til óháðs teymis.

Sveinn Ólafur Melsted
Stefanía Hildur Ásmundsdóttir, Yrsa Guðrún Þorvaldsdóttir og Gyða Kristjánsdóttir, ráðgjafar hjá Hagvangi, eru umsjónarmenn Siðferðisgáttarinnar.
Gígja Einarsdóttir

Siðferðisgáttin er þjónusta sem ráðgjafarfyrirtækið Hagvangur hefur boðið upp á í ríflega tvö ár. Með þjónustunni gefst starfsmönnum fyrirtækja og stofnana kostur á að koma kvörtunum á framfæri beint til óháðs teymis innan Hagvangs ef þeir verða fyrir óæskilegri háttsemi á vinnustað eða finna fyrir annars konar vanlíðan í tengslum við störf sín.

„Siðferðisgáttin er verkfæri sem styður við mannauðsstarf," segir Stefanía Hildur Ásmundsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi, en hún heldur utan um Siðferðisgáttina ásamt Gyðu Kristjánsdóttur og Yrsu Guðrúnu Þorvaldsdóttur.

„Allir starfsmenn vinnustaða með aðild að Siðferðisgáttinni geta, óháð stöðu, tilkynnt til Siðferðisgáttarinnar ef þeir upplifa einhvers konar vanlíðan eða óæskilega háttsemi í störfum sínum. Eftir að tilkynning berst fer málið í viðeigandi ferli og er Siðferðisgáttin því eins konar boðleið milli tilkynnanda og vinnustaðar," bætir Stefanía við.

„Hugmyndin að Siðferðisgáttinni kom upp árið 2018 og spratt upp frá ákalli frá atvinnulífinu um að það vantaði boðleið fyrir starfsfólk til þess að koma á framfæri tilkynningum um óæskilega háttsemi eða vanlíðan í starfi beint til óháðra aðila. Mörg fyrirtæki voru ítrekað að lenda í því að mál voru yfir höfuð ekki að koma upp á yfirborðið, og ef þau gerðu það þá voru þau oft að koma upp á yfirborðið allt of seint og málið þá orðið mun stærra en ef það hefði komið fyrr inn til úrvinnslu. Hugmyndin var því að finna lausn sem gerði vinnustöðum kleift að grípa fyrr inn í áður en vandamálið væri búið að fá að grassera lengi," segir Gyða.

Hún segir sérlega mikilvægt að vandað sé til verka í málum sem þessum og því hafi verið lagt mikið púður allt frá upphafi í að gæta þess að ferlar og annað sem Siðferðisgáttin byggir á væri fyrsta flokks. „Nú tveimur árum síðar er komin reynsla á ferlana og vissa á að þeir séu vandaðir og standi fyrir sínu."

Vildu forðast vaxtarverki

Nú sé því kominn tími til að stíga á bensíngjöfina og koma þessari þjónustu að sem víðast. „Í dag erum við með sjö samstarfssamninga sem ná yfir tíu fyrirtæki og hefur þessi þjónusta mælst vel fyrir hjá viðskiptavinum. Við vildum ekki fá of marga viðskiptavini inn strax, meðan reynsla væri að fást á ferlana. Sum mál sem tilkynnt eru í gegnum Siðferðisgáttina eru það viðkvæm að við vildum alls ekki upplifa einhverja vaxtarverki og ná ekki utan um allar tilkynningar sem berast," segir Yrsa. „Að okkar mati á Siðferðisgáttin erindi inn á alla vinnustaði landsins," bætir Stefanía við.

Eignarhaldsfélagið Festi var fyrsti viðskiptavinur gáttarinnar og kom því að þróun hennar. „Við vorum mjög heppin að fá Festi með okkur í þetta samstarf, þar sem um er að ræða stórt fyrirtæki með um tvö þúsund starfsmenn í vinnu innan nokkurra mismunandi rekstrarfélaga," segir Gyða.

„Ýmis mál geta komið upp á öllum vinnustöðum og í ákveðnum tilfellum getur starfsmaður átt erfitt með að leita til einhvers innan vinnustaðarins. Við hjá Festi og rekstrarfélögum teljum það mjög mikilvægt að bjóða starfsfólki okkar upp á hlutlausan vettvang til að leita til. Samstarfið við Siðferðisgáttina hefur gengið mjög vel og er fagmennska ráðgjafa til fyrirmyndar. Oft er um viðkvæm mál að ræða og skiptir því miklu máli að fullkomið traust ríki á milli aðila og hefur það svo sannarlega verið upplifunin," segir Valgerður María Friðriksdóttir, mannauðsstjóri Festi.

Stefanía segir það að fá mál upp á borðið strax í upphafi skili sér í færri veikindadögum starfsfólks, auk þess sem mikill kostnaður geti falist í því að láta svona mál óafskipt. „Þetta er ekki bara gert til að bæta líðan starfsfólks, heldur einnig til að bæta reksturinn."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér