„Þetta er, eins og ég segi, mjög alvarleg staða, sem að getur ekki verið viðvarandi lengur, og þetta eru síðustu forvöð fyrir menn að ná saman með samningum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við RÚV um kjaradeilu háskólamanna og hjúkrunarfræðingar við ríkið.

Tæp vika er frá síðasta samningafundi og ætlar ríkissáttasemjari að boða samninganefndir á fund í síðasta lagi á morgun. Bjarni segir að ríkisstjórnin hafi ekki útilokað þann möguleika að setja lög á verkföllin.

„En hann er algjört neyðarúrræði, og ég vil fá að heyra það frá mínu fólki að það sé búið að tæma alla möguleika, og það sé engin von. Það þarf ég að heyra frá sáttasemjara og okkar samningafólki, en síðast í gær var talað saman, þannig að meðan það er eitthvert líf í einhverju samtali, þá viljum við ekki fara lagaleiðina,“ segir Bjarni.

Hann segir takmörk fyrir því hversu lengi verkföllin geti staðið. Hann segir að sú staðreynd að ekki sé enn komið fram frumvarp sýni að ríkisstjórnin hafi haft trú á því að aðilar næðu saman.