Nú um helgina fara fram prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í tveimur kjördæmum, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Þar með lýkur prófkjörum flokksins fyrir alþingiskosningarnar í vor.

Í Norðausturkjördæmi takast alþingismennirnir Kristján Þór Júlíusson og Tryggvi Þór Herbertsson á um oddvitasætið. Kristján Þór er nú oddviti flokksins í kjördæminu en Tryggvi Þór í öðru sæti.

Í Suðurkjördæmi sækist Ragnheiður Elín Árnadóttir eftir endurkjöri sem oddviti flokksins en þeir Árni Johnsen, Kjartan Ólafsson og Halldór Gunnarsson hafa einnig boðið sig fram í 1. sæti listans. Unnur Brá Konráðsdóttir sækist eftir 2. sæti á lista flokksins.