Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir stuttu að breski raftækjaframleiðandinn Dyson hafi haldið því fram að ryksugur frá þýsku raftækjaframleiðendunum Siemens og Bosch innihaldi hugbúnað sambærilegum hugbúnaði Volkswagen. Dyson hélt því fram að ryksugurnar innihaldi hugbúnað sem geri þeim kleift að skynja hvenær þær eru að sjúga upp ryk, en þá auki þær sogkraftinn og nota þ.a.l. meiri orku en við opinberar prófanir.

Bocsh hefur nú stigið fram og hafnað ásökunum Dyson, en Bosch á meirihluta í Siemens. Bocsh segir að allar ryksugur frá Bosch og Siemens séu prófaðar skv. tilskipun Evrópusambandsins um visthönnun á ryksugum, en Evrópusambandið hefur skilgreint nákvæma mælistaðla til að mæla orkumerkingargildi ryksuganna. Bocsh segir einnig að afköst tækjanna á heimilum séu í fullu samræmi við afköst á prófunarstofunni.

Bosch hefur einnig lýst því yfir að félagið muni höfða mál gegn Dyson vegna falskra ásakana.