SÍF hf. hefur gengið frá sölu á öllum hlut sínum í Iceland Seafood International ehf. Samhliða sölunni á Iceland Seafood International var einnig gengið frá sölu SÍF hf. á öllu hlutafé í Trosi ehf. í Sandgerði sem sérhæft er í útflutningi á ferskum sjávarafurðum. Sú breyting hefur orðið á upphaflegum samningum að nú hefur allt hlutafé SÍF hf. í fyrirtækinu verið selt til nýrra eigenda en áður var gert ráð fyrir sölu á 55% hlut, sbr. tilkynningu þann 30. mars síðastliðinn. Nýjir eigendur eru Ker hf., Bjarni Benediktsson og Benedikt Sveinsson og miðast salan við 1. apríl 2005.

Iceland Seafood International ehf. var stofnað í nóvember 2004 um hefðbundið sölu- og markaðsstarf SÍF hf. með lítt unnar sjávarafurðir. Fyrirtækið selur ferskar, frystar og saltaðar sjávarafurðir frá íslenskum framleiðendum í gegnum alþjóðlegt markaðsstarf sitt en starfsstöðvar þess eru á Íslandi, í Bretlandi, Frakklandi, Litháen, Póllandi, Grikklandi, Kanada, á Ítalíu og Spáni.

Eins og greint var frá í kynningu með afkomu fyrsta ársfjórðungs þessa árs, minnkar skuldsetning SÍF hf. um ?63 milljónir við söluna miðað við skuldastöðu þann 31. desember 2004. Áhrif af sölu fyrirtækjanna á afkomu samstæðunnar eru óveruleg.

Með sölunni á Iceland Seafood International er stórum áfanga náð í stefnumótun SÍF hf. þar sem megináherslan er á framleiðslu fullunninna matvæla fyrir Evrópumarkað þar sem fyrirtækið er leiðandi í ýmsum vöruflokkum virðisaukandi hátíðarvara og tilbúinna rétta. Hjá SÍF vinna tæplega 4.000 manns í fimm löndum en félagið starfrækir 12 verksmiðjur í Frakklandi, Englandi, Skotlandi og á Spáni. Framleiðsla SÍF er seld undir eigin vörumerkjum sem eru Labeyrie, Blini, Delpierre, Skandia og Lyons Seafoods en félagið er einnig með sterka stöðu í vörumerkjum verslanakeðja á mörkuðum félagsins. Gert er ráð fyrir að SÍF-samstæðan velti um 600 milljónum evra á yfirstandandi rekstrarári sem hófst 1. júlí 2005 og lýkur 30. júní 2006.